Velkomin á vefsíðu Guðmundar Más Stefánssonar lýtalæknis í Dea Medica Glæsibæ

Með þessari heimasíðu vill Guðmundur Már Stefánsson lýtalæknir veita upplýsingar um helstu aðgerðir sem lýtalæknar framkvæma. Ef þú telur þig hafa ástæðu til þess að leita til lýtalæknis er fyrsta skrefið að skoða þann flokk aðgerða sem á við um þig út frá þínum persónulegu ástæðum. Því næst skaltu fara vel yfir spurningar og svör og leggja raunsætt mat á vandamálið út frá þeirri umfjöllun. Ef ekki er umfjöllun hér á heimasíðunni um nákvæmlega þitt vandamál skaltu skoða það sem helst gæti líkst eðli þess. Ef þú kemst að þeirri niðurstöðu að aðgerð geti komið að gagni er rétt að skoða og hugleiða vandlega alla þætti aðgerðarinnar, undirbúning, framkvæmd, áhættu, tímann sem aðgerðin tekur og einnig að átta sig á þeim tíma sem fer í að ná fullum bata. Mikilvægt er að hafa hugfast við yfirferð allra þátta hvort aðstæður þínar muni raunverulega batna.

Hvers vegna að leita til lýtalæknis?

Ástæðurnar fyrir því að einstaklingur ákveður að fara í lýta- og/eða fegrunaraðgerð geta verið margar, allt frá smávægilegum útlitsatriðum sem valda óþægindum yfir í lýti sem aflaga útlit með áberandi hætti. Ræturnar geta einnig verið margs konar, allt frá fæðingargalla yfir í afleiðingar af slysi eða sjúkdómi. Það sem er sameiginlegt er að lýtið veldur andlegri vanlíðan og hefur áhrif á sjálfstraust og sjálfsímynd. Oft og tíðum geta einstaklingar miklað fyrir sér lýti sem alls ekki er ástæða til að hafa áhyggjur af. Á hinn bóginn geta margs konar lýti, bæði stór og smá, verið þess eðlis að einstaklingurinn hefur fulla ástæðu til að leita til læknis. Þá ber lækninum að hjálpa einstaklingnum við að leggja raunhæft og faglegt mat á eðli lýtisins og þýðingu þess fyrir einstaklinginn. Í þeim tilfellum þar sem slíkt sameiginlegt mat leiðir til aðgerða hefur það oftar en ekki í för með sér bætta líðan einstaklingsins.