Felst einhver áhætta í brjóstastækkunaraðgerð?

Brjóstastækkun er tiltölulega einföld og örugg aðgerð. En eins og með aðrar skurðaðgerðir almennt, þá fylgir henni ákveðin áhætta og vandamál geta komið upp. Flestar konur sem fara í brjóstastækkunaraðgerð finna aldrei fyrir vandamálum né verða varar við vandamál henni fylgjandi. En vegna áralangrar umræðu um vandamál og málaferli tengd brjóstapúðum er rétt að fara ítarlegar yfir áhættuþætti tengda brjóstastækkunum. Þá eru þeir einstaklingar sem hyggja á slíka aðgerð hvattir til þess að fara vandlega yfir alla mögulega áhættu og ræða það við lýtalækninn.

  1. Algengasta vandamálið sem upp kemur vegna brjóstastækkunar er herping (capsular contracture). Þetta gerist ef hólfið sem hýsir brjóstapúðana byrjar að herpast og þrengja að þeim þannig að púðarnir virðast harðna. Hægt er að bregðast við þessu vandamáli á nokkra vegu, t.d. með því að skipta um eða færa púðana til og í sjaldgæfum tilfellum getur þurft að fjarlægja brjóstapúðann.
  2. Líkt og í fjölmörgum skurðaðgerðum getur blæðing eftir aðgerð valdið bólgum og verkjum. Ef blæðingin heldur áfram eftir aðgerð gæti það orðið til þess að opna þurfi skurðinn aftur til að hleypa út blóði eða stöðva blæðingu.
  3. Mjög lágt hlutfall kvenna fær innvortis sýkingu í vefina kringum brjóstapúðann. Þá sjaldan það gerist er algengast að slíkur vandi komi upp innan viku frá aðgerð. Komi slík sýking upp þarf að fjarlægja púðann í nokkra mánuði og vinna bug á sýkingunni með lyfjum í samráði við lýtalækninn. Eftir það má setja nýjan púða í brjóstið.
  4. Einstaka konur hafa fundið fyrir breytingum eins og auknu næmi og tilfinningu í geirvörtum, tilfinningaleysi í geirvörtum og jafnvel dofa. Einnig dofa á litlum svæðum kringum skurðinn. Yfirleitt hverfa slík einkenni með tímanum en í undantekningatilfellum geta þau orðið að hluta til viðvarandi.
  5. Hvergi hefur verið sýnt fram á að brjóstapúðar hafi áhrif á frjósemi kvenna, meðgöngutímann eða möguleika kvenna til að hafa barn á brjósti. Hafir þú hins vegar haft barn á brjósti innan árs fyrir brjóstastækkunaraðgerð gætir þú byrjað að framleiða mjólk í nokkra daga eftir aðgerð. Slíkt getur eðlilega valdið óþægindum en má meðhöndla með lyfjagjöf.
  6. Í einstaka tilfellum getur púðinn sprungið eða lekið. Slíkt getur gerst eftir slys eða jafnvel ef tekið er mjög harkalega á brjóstinu með venjulegum hætti, einkum ef púðinn er mjög gamall. Við það getur himnan á púðanum rifnað og byrjað að leka. Ef um saltvatnsfyllingu er að ræða lekur vatnið út í líkamann á nokkrum klukkutímum og leysist þar upp án þess að koma að sök. Ef púðinn er hins vegar fylltur með geli getur tvennt gerst. Ef himnan á púðanum rofnar en bandvefshjúpurinn sem umlykur hana helst lokaður er ekki víst að þú verðir vör við breytinguna. Komi hins vegar einnig rifa á bandvefshjúpinn, sérstaklega ef þrýstingur hefur verið mikill á brjóstið, getur sílikongel smeygt sér inn í aðra vefi í brjóstinu og myndað lítil lokuð hólf utan um gelið hér og hvar í brjóstinu. Við þetta eru miklar líkur á að brjóstið aflagist og glati eðlilegu formi sínu. Í báðum tilfellum þarf að skipta um brjóstapúða og nema á brott þá sem hafa lekið. Ekki tekst þó alltaf að fjarlægja allt gel úr brjóstinu komi slíkur leki upp.

Þó svo að engar rannsóknir hafi sýnt fram á að púðar í brjósti geti orsakað krabbamein geta þeir breytt þeim aðferðum sem þarf að viðhafa við leit að krabbameini í brjósti. Þegar þú ferð í venjubundna krabbameinsleit þarftu að láta vita af púðanum í brjóstinu.


Hvað þarf ég að hafa í huga fyrir brjóstastækkunaraðgerð?

Brjóstastækkun getur bætt útlit þitt og sjálfstraust en getur ekki uppfyllt væntingar um hið fullkomna útlit. Áður en þú ákveður að fara í brjóstastækkunaraðgerð skaltu hugsa vandlega um þær væntingar sem þú hefur um útlit þitt eftir aðgerð, og ræða þær ítarlega við lýtalækninn. Mikilvægt er að gera sér grein fyrir því að brjóstastækkunaraðgerð getur bætt útlit þitt og líðan en ekki fært þér fullkomin brjóst. Því er mikilvægt að hafa raunsæjar hugmyndir um árangurinn.


Hvers konar brjóstapúða er best að nota?

Brjóstapúðar sem notaðir eru við brjóstastækkun eru sílikonhjúpar sem annaðhvort eru fylltir með sílikongeli eða saltvatni. Hér á landi er mun algengara að nota sílikonpúða en saltvatnspúða vegna þess að sílikonpúðar laga sig betur að brjóstinu. Með því að koma púðanum fyrir undir brjóstinu getur lýtalæknirinn stækkað brjóstin um eina skálarstærð eða meira. Á liðnum áratug hefur sílikonpúðinn verið ítarlega rannsakaður og mestallur ágreiningur um öryggi sílikonpúðans verið leystur. En eins og fram kemur í áhættuþáttum hér að framan er þó ekki hægt að útiloka að vandamál komi upp

Hvernig get ég undirbúið mig fyrir brjóstastækkun?

Í fyrsta viðtali mun lýtalæknirinn meta forsendur þínar til að fara í aðgerð og heilsu þína almennt með tilliti til brjóstastækkunar. Mikilvægt er að ræða við lýtalækninn um ástæður þínar og væntingar á opinskáan og hreinskilinn hátt. Einnig þarftu að búa þig undir raunsætt og opinskátt mat lýtalæknisins varðandi möguleika þína og áhættu við aðgerðina. Sérstaklega er mikilvægt að láta lækninn vita ef um er að ræða arfgenga sjúkdóma í brjóstum í fjölskyldu þinni, hvort þú reykir og hvaða lyf og bætiefni þú notar o.s.frv.


Hvar er aðgerðin framkvæmd?

Aðgerðin er framkvæmd á skurðstofu Læknahússins í Dea Medica. Skurðstofur Guðmundar Más er á 7. hæð í Glæsibæ.


Þarf ég að fara í svæfingu?

Í öllum tilvikum fer brjóstastækkunaraðgerð fram í svæfingu. Svæfingin er gerð af svæfingalækni sem heldur þér sofandi gegnum aðgerðina og fylgist með þér á meðan á aðgerðinni stendur. Einnig meðan þú ert að vakna og jafna þig fyrstu stundirnar eftir aðgerð. Svæfingatækni hefur þróast á síðustu árum þannig að svæfingar eru í dag öruggari, fólk fljótara að jafna sig og minni hætta er á ógleði en áður var.


Hvað gerist á meðan á aðgerð stendur?

Áður en þú ferð í aðgerðina þarftu að ræða við lýtalækninn um aðgerðina sjálfa og fullvissa bæði sjálfa þig og lækninn um að þú hafir fullan skilning á því sem fram fer. Aðferðin sem er notuð til að setja púðana í brjóstin og staðsetja þá rétt byggist á líkamsbyggingu þinni. Púðarnir eru ýmist settir undir kirtilinn eða undir bringuvöðvann. Oftast er skurður opnaður undir brjóstinu en þó stundum við geirvörtu eða handarkrika. Öllum aðferðum er beitt til að ör verði sem minnst áberandi. Gegnum skurðinn útbýr lýtalæknirinn hólf, ýmist undir bringuvöðvanum eða undir brjóstkirtlinum, þar sem sílikonpúðanum er komið fyrir. Ef herping á sér stað verður hennar mun minna vart undir en yfir vöðvanum. Fyrst eftir aðgerð fylgja því hins vegar meiri verkir að staðsetja púðann undir vöðva.


Hversu langan tíma tekur aðgerðin?

Brjóstastækkunaraðgerð tekur yfirleitt einn og hálfan til tvo tíma. Þá getur vöknun tekið einn til tvo tíma þannig að heildartími aðgerðar með vöknun er um fjórir tímar.


Hvernig verður ástand mitt strax eftir aðgerðina?

Eftir aðgerðina er líklegt að þú verðir þreytt og finnir fyrir særindum í skurðinum. Slíkum óþægindum er þó hægt að halda niðri með verkjalyfjum. Flestar konur sem fara í brjóstastækkunaraðgerð eru þó orðnar rólfærar eftir einn til tvo sólarhringa. Eftir aðgerðina er sett grisja á sárið og umbúðir utan um brjóstin og eru þær fjarlægðar eftir fáeina daga. Fyrstu tvær vikurnar eftir aðgerð gætir þú fundið fyrir sviða í geirvörtunum sem minnkar eftir því sem mar og bólga hverfur og sárin gróa. Þú getur þó orðið vör við bólgu í brjóstunum í þrjár til fimm vikur. Venjulega er skurðum lokað með saumum sem leysast upp og þarf því ekki að fjarlægja neina sauma.


Hversu langan tíma tekur að ná eðlilegum bata?

Yfirleitt er hægt að snúa til vinnu fáeinum dögum eftir aðgerð þó að tegund og eðli vinnunnar skipti hér nokkru máli. Mikilvægt er að fylgja fyrirmælum lýtalæknisins til hins ýtrasta varðandi líkamsrækt og hreyfingu. Líklega eru brjóstin frekar viðkvæm fyrstu þrjár vikurnar og þola illa snertingu. Eftir það eru brjóstin sjaldnast sár og ætti snerting að þeim tíma liðnum ekki að koma að sök. Í a.m.k. sex vikur er skurðurinn sýnilegur og roði í sárinu. Eftir það verða sárin svipuð um nokkurn tíma og gætu alveg eins virst víkka út. Eftir nokkra mánuði byrja sárin eftir skurðina að fölna en hverfa aldrei alveg. Rétt er að verja örin fyrir sólarljósi meðan þau eru rjóð.


Hvaða væntingar ætti ég að hafa varðandi breytt útlit?

Fyrir flestar konur sem taka ígrundaða ákvörðun um að fara í brjóstastækkun er reynslan afar ánægjuleg. Í mörgum tilfellum jafnvel stórkostleg ef marka má umsagnir. Eins og að framan getur er brjóstastækkunaraðgerð ekki alveg áhættulaus. Því er nauðsynlegt að láta lýtalækninn fylgjast reglulega með til að hægt sé að bregðast við fljótt ef vandamál koma upp. Ákvörðun þín um að fara í brjóstastækkunaraðgerð er mjög persónuleg ákvörðun og ekki víst að allir í kringum þig hafi sama skilning á ákvörðuninni og þú. Hið mikilvæga er að þú sért sátt við ákvörðunina og að hún skili þeim árangri og markmiði sem þú settir þér. Brjóstastækkunaraðgerð hindrar ekki brjóstagjöf síðar á ævinni.