Hvers konar áhætta fylgir aðgerð á eyrum?
Sjaldan koma upp vandamál við eyrnaaðgerðir og í þeim tilfellum þegar vandamál koma upp eru þau oftast minni háttar. Engu að síður eru ákveðnar áhættur sem fylgja öllum skurðaðgerðum, eins og t.d. blæðingar og sýkingar þótt slíkt sé sjaldgæft. Í undantekningartilfellum geta komið upp vandamál varðandi eyrnaaðgerðir eins og t.d. höfnun á innri saumum.
Hvað þarf ég að hafa í huga varðandi þörf á eyrnaaðgerð?
Þar sem aðgerðir á eyrum eru oftast gerðar á börnum er mikilvægt að foreldrar reyni að átta sig á raunverulegum sálrænum áhrifum útistandandi eyrna á barnið. Ekki er endilega nauðsynlegt að ýta barninu út í aðgerð ef það er fyllilega sátt við útlit sitt. Þau börn sem eru ósátt við útlit sitt eru móttækilegri fyrir aðgerð og eru líklegri til að verða ánægðari með útkomuna. Í fyrsta viðtali mun lýtalæknirinn meta með þér umfang aðgerðarinnar og veita þér leiðbeiningar um undirbúning og útskýra framkvæmd aðgerðarinnar.
Hvar er aðgerðin framkvæmd?
Aðgerðin er framkvæmd á skurðstofu Læknahússins í Dea Medica. Skurðstofur Guðmundar Más er á 7. hæð í Glæsibæ.
Hvað gerist meðan á aðgerð stendur?
Í eyrnaaðgerð þarf ekki að svæfa þó að svæfingar séu oft notaðar á börnum og yngri krökkum. Aðgerðir á unglingum og fullorðnum eru yfirleitt gerðar með deyfingu. Í aðgerðinni opnar lýtalæknirinn skurð aftan á eyranu til að komast að brjóskinu. Brjóskið er síðan mótað til og fært nær höfðinu eða hluti þess numinn brott. Að þessu loknu er skurðurinn saumaður saman. Aðgerðin skilur eftir ör aftan á eyranu sem er lítt sýnilegt og yfirleitt varla greinanlegt með tímanum.
Hversu langan tíma mun aðgerðin taka?
Eyrnaaðgerð tekur venjulega um einn og hálfan til tvo og hálfan klukkutíma, en flóknari og viðameiri aðgerðir geta tekið lengri tíma.
Hversu langan tíma tekur að ná fullum bata?
Fullorðnir einstaklingar og unglingar sem fara í eyrnaaðgerð eru yfirleitt orðnir rólfærir nokkrum klukkutímum eftir aðgerð. Börn sem fara í svæfingu þurfa yfirleitt tvo til þrjá tíma undir eftirliti í vöknun þangað til áhrif svæfingarinnar eru hjöðnuð. Eftir aðgerð eru umbúðir vafðar utan um höfuðið til þess að styðja hina nýju mótun eyrnanna og einnig til að flýta fyrir bata. Líklegt er að þú, eða barnið þitt, finnir fyrir verkjum eftir aðgerðina. Úr því má draga með verkjastillandi lyfjum. Eftir nokkra daga eru umbúðirnar fjarlægðar og léttari umbúðir settar í þeirra stað. Ekki er óalgengt að nota íþróttabindi til að vernda eyrun og að hjálpa til við mótun eyrnanna meðan sárin eru að gróa. Mikilvægt er að fara í einu og öllu eftir fyrirmælum lýtalæknisins varðandi þessar umbúðir, sérstaklega á nóttunni. Yfirleitt eru notaðir saumar sem leysast upp og hverfa á fjórum til sex vikum. Til að tryggja öruggan bata er þýðingarmikið að taka ekki þátt í leikjum eða íþróttum þar sem hætta er á að eyrun verði fyrir hnjaski. Flestir fullorðnir geta snúið aftur til starfa eftir fáeina daga og börn geta farið í skóla eftir viku. Þau verða þó að fara varlega í alla leiki í frímínútum og íþróttum. Gott er að fá kennarann í lið með sér til að fylgjast með barninu fyrstu vikurnar eftir að það snýr aftur í skólann..
Hvaða áhrif mun breytt útlit hafa?
Flestir þeir sem fara í eyrnaaðgerð eru ánægðir með árangurinn. Hér ber þó að undirstrika að markmið aðgerðarinnar er að bæta útlit og líðan en ekki er hægt að vænta kraftaverka eða algjörrar fullkomnunar. Oft næst t.d. ekki sá árangur að bæði hægra og vinstra eyra séu nákvæmlega eins staðsett. Ef væntingar eru í samræmi við upphaflegt markmið eftir viðtal við lýtalækninn eru miklar líkur á að bæði foreldrar og barn verði ánægð með árangurinn.