Almennar spurningar um lýtalækningar
Flestir sem hugleiða lýtaaðgerð hafa almennar spurningar um lýtaaðgerðir og fegrunaraðgerðir. Hér á eftir er farið yfir algengustu spurningar og svör við þeim.
Hver er munurinn á lýtaaðgerð og fegrunaraðgerð?
Lýtaaðgerðir eru framkvæmdar til að lagfæra ástand vegna sára, sýkinga eða lýta sem eru afleiðingar slysa og áverka af ýmsu tagi, t.d. til að græða bruna-, legu- eða leggjarsár og til að laga afleiðingar eftir slík sár. Þá eru lýtaaðgerðir framkvæmdar til að lagfæra meðfædda vansköpun af ýmsu tagi. Lýtaaðgerðir eru einnig framkvæmdar við uppbyggingu brjósta hjá konum sem hafa misst brjóst vegna krabbameins. Sjúkratryggingar koma að lýtaaðgerðum af þessu tagi, sbr. reglugerð nr. 471 um greiðslur sjúkratrygginga fyrir lýtalækningar og fegrunaraðgerðir. Sjá síðu um gjaldskrá. Fegrunaraðgerðir eru hins vegar framkvæmdar í því augnamiði að fegra eða bæta útlit eða endurheimta yngra útlit. Einstaklingar sem leita slíkra aðgerða teljast ekki sjúkir eða bera menjar áverka eða slysa. Almannatryggingar taka engan þátt í kostnaði við slíkar aðgerðir. Dæmi um fegrunaraðgerðir eru andlitslyfting, augnlokaaðgerðir, brjóstastækkun o.fl.
Eru lýtaaðgerðir og fegrunaraðgerðir fyrir hvern sem er?
Einstaklingar með sýkingu, lasleika eða mein eftir veikindi eins og til dæmis krabbamein eða einstaklingar sem eru að kljást við afleiðingar slysa, áverka eða sjúkdóma þurfa oft á lýtaaðgerð að halda. Við slíkar aðstæður eiga þeir rétt á lýtaaðgerð, eigi hún við á annað borð, með þátttöku almannatrygginga. Oftast er þörf fyrir slíka aðgerð nokkuð augljós og er hún oftar en ekki hluti af lækningameðferð viðkomandi. Fegrunaraðgerðir eru hins vegar einstaklingsbundnari og ekki alltaf jafnaugljósar. Margir einstaklingar geta engu að síður haft margbreytilegan ávinning af fegrunaraðgerðum, einkum ef vandamálið sem á að meðhöndla er vel skilgreint og afmarkað.
Hvernig er best að búa sig undir aðgerð?
Eftir að lýtalæknirinn hefur farið með þér yfir vandamálið og aðgerð hefur verið ákveðin mun hann gefa þér leiðbeiningar um undirbúning fyrir aðgerð. Þar er tekið fram hversu lengi þú eigir að fasta fyrir aðgerð, einnig ráðleggingar um að hætta eða gera hlé á reykingum og hugsanlega að gera hlé á inntöku vissra lyfja og fæðubótarefna. Þá geta átt við leiðbeiningar um hreinlæti og sóttvarnir. Mikilvægt er að fara í einu og öllu eftir þessum fyrirmælum. Þá er almennt gott að vera vel hvíldur og í sem bestu líkamlegu ástandi þegar að aðgerð kemur.
Hvers konar aðgang mun ég hafa að lækninum á batatíma fyrstu dagana eftir aðgerð?
Eftir aðgerð mun lýtalæknirinn beina þér í eftirlit nokkrum sinnum með nokkurra daga millibili, allt eftir eðli og umfangi aðgerðarinnar. Þá mun hann afhenda þér upplýsingar um símanúmer á vinnustað, heimasíma og farsíma þannig að þú náir til hans komi eitthvað óvænt upp á eða þú viljir ráðfæra þig við hann gegnum síma.
Hvers vegna eru þeir einstaklingar sem fara í aðgerðir hjá lýtalækni hvattir til þess að hætta að reykja fyrir og eftir aðgerð?
Reykingafólk er yfirleitt beðið um að hætta reykingum í tvær vikur fyrir og eina viku eftir aðgerð. Ástæðan er að reykingar hamla og tefja fyrir því að sár grói. Þá er það þekkt staðreynd að fylgikvillar aðgerða eru mun tíðari hjá reykingafólki bæði í aðgerð sem og eftir aðgerð.
Hvar eru lýtalækningaaðgerðir framkvæmdar?
Aðgerðin er framkvæmd á skurðstofu Læknahússins í Dea Medica. Skurðstofur Guðmundar Más er á 7. hæð í Glæsibæ.
Hvernig er verkjastilling tryggð á meðan aðgerð fer fram?
Aðgerðir fara ýmist fram í svæfingu, deyfingu eða millistigi þessara tveggja verkjastillandi aðferða. Í því tilfelli er um að ræða deyfingu með inngjöf slævandi efna. Verkjastillandi aðferð ræðst að nokkru leyti af umfangi aðgerðarinnar, aldri viðkomandi og ýmsum öðrum þáttum. Á stundum getur það farið eftir óskum viðkomandi hvaða aðferð er beitt. Er þetta venjulega ákveðið og frágengið í viðtali dögum eða vikum áður en aðgerð fer fram.
Hvers konar fagfólk sér um svæfingar og vöknun eftir svæfingar?
Svæfingalæknir annast svæfingar undantekningalaust. Eftirlit í vöknun er á höndum hjúkrunarfræðinga og svæfingalækna sameiginlega.
Eru einhver vandamál sem koma upp varðandi fegrunaraðgerðir?
Vandamál og fylgikvillar sem upp geta komið fara að sjálfsögðu eftir því hvaða aðgerð á í hlut. Sameiginlegt fyrir þorra aðgerða er þó að í flestum tilvikum sitja eftir einhver ör á minna eða meira áberandi stöðum. Allt er þó gert til að örin verði sem minnst áberandi. Þá er einnig mismunandi eftir einstaklingum hversu líklegt er að ör myndist. Hætta á blæðingum og sýkingum fylgir að einhverju leyti öllum aðgerðum í mismunandi mæli, þó eftir eðli og umfangi aðgerðarinnar. Í sumum tilvikum geta einnig fylgt tímabundin óþægindi eftir svæfingar, svo sem ógleði, svimi o.fl. Til að draga úr hættu á að upp komi vandamál er mikilvægt að fara að ráðleggingum lýtalæknisins og taka inn þau lyf sem hann ráðleggur.
Hvernig eru ákvarðanir um stærð brjóstapúða teknar?
Við ákvarðanir um stærð brjóstapúða er tekið mið af hæð, þyngd og líkamsbyggingu viðkomandi. Fyrir aðgerð fá konur að máta púða innan klæða til að átta sig betur á þeirri stærð sem hæfir þeim. Farið er að ósk konunnar um stærð svo fremi að það sé innan skynsamlegra marka.
Er algengt að skurðir skilji eftir sýnileg ör?
Allar aðgerðir skilja eftir sig einhver ör. Í mörgum tilvikum er hinsvegar hægt að koma örunum fyrir á lítt áberandi eða jafnvel ósýnilegum stöðum. Allri tækni og þekkingu er beitt til að örin megi verða sem minnst áberandi. Útlit öra ræðst hins vegar engan veginn eingöngu af þeirri tækni sem beitt er heldur ekki síður af því hvernig viðkomandi einstaklingur myndar ör. Sumir mynda áferðarfalleg og lítt áberandi ör en aðrir grófari og þykkari ör og einstaka fá sk. ofholdgun í ör. Útlit öra má í flestum tilvikum bæta síðar ef þörf krefur með ýmsum ráðum, en útlit öra er engan veginn hægt að sjá fyrirfram.
Hversu lengi þarf ég að hafa sauma?
Í mörgum tilvikum er saumað með saumum sem eyðast og þarf því ekki að fjarlægja neina sauma. Í staðinn eru oft notaðir sérstakir plástrar til að styðja við skurð í vissan tíma eftir aðgerð. Sé saumað í andlit með saumi sem þarf að fjarlægja eru þeir yfirleitt fjarlægðir fimm til átta dögum eftir aðgerð. Á bol og útlimum þurfa slíkir saumar að vera lengur eða eftir atvikum í átta til fjórtán daga.
Get ég tekið verkjalyf eftir aðgerð?
Ekki er ráðlegt að taka verkjalyf sem innihalda aspirín fyrstu dagana eftir aðgerð þar sem það þynnir blóðið og eykur hættu á blæðingu og mari, t.d. magnyl. Notast er við önnur verkjalyf eftir aðgerðir sem ekki þynna blóðið, t.d. parasetamól, parkódín, parkódín forte o.fl.
Hver er algengur batatími eftir fegrunaraðgerð?
Batatími fer eftir stærð og umfangi aðgerðarinnar og líkamlegu ástandi viðkomandi. Getur batatími því verið frá nokkrum dögum upp í nokkrar vikur, allt eftir umfangi og eðli aðgerðar.