Felst einhver áhætta í brjóstalyftingu?
Brjóstalyfting er yfirleitt örugg og áhættulítil ef hún er framkvæmd af lýtalækni eftir þekktum þróuðum aðferðum. Áhættur fylgja þó þessum aðgerðum eins og öllum öðrum aðgerðum. Helstu áhættur eru blæðingar, sýkingar og höfnun á saumum. Með því að undirbúa aðgerðina vandlega og fara í öllum atriðum eftir fyrirmælum lýtalæknisins er hægt að minnka til muna líkurnar á að vandamál komi upp.
Hvað þarf ég að hafa í huga áður en ég fer í brjóstalyftingu?
Ef þú telur að brjóstalyfting sé gagnleg aðgerð fyrir þig er æskilegt að þú hugsir vandlega um ástæðurnar og ræðir þær hreinskilnislega við lýtalækninn. Oft og tíðum finnst einstaklingum mikil þörf á lýtaaðgerð þó að öðrum finnist það ekki jafnaugljóst. Því er mikilvægt að undirbúa fyrsta viðtal með því að hafa á takteinum ástæður þínar fyrir aðgerð og einnig að átta þig vel á þeim væntingum sem þú hefur um útkomuna. Í viðtalinu þarftu að vera undir það búin að lýtalæknirinn sé einnig hreinskilinn við þig um möguleika þína og hvers sé að vænta eftir aðgerðina. Í þessu sambandi er ákaflega mikilvægt að gefa lýtalækninum réttar upplýsingar um heilsufarssögu þína.
Hvernig get ég undirbúið mig fyrir brjóstalyftingu?
Áður en að aðgerð kemur mun lýtalæknirinn gefa þér fyrirmæli sem hjálpa þér við að undirbúa aðgerð. Eru það leiðbeiningar um mat og drykk, reykingar, áfengi og lyfjanotkun. Æskilegt er að þyngd sé sem næst kjörþyngd þegar aðgerð fer fram. Best er ef viðkomandi reykir ekki eða að lágmarki geri hlé á reykingum vissan tíma fyrir og eftir aðgerð. Við undirbúning er rétt að gera ráð fyrir að aðstandandi eða vinur sæki þig við útskrift og einnig að gera ráð fyrir hjálp heima fyrir fyrstu dagana eftir aðgerð.
Hvar er aðgerðin framkvæmd?
Aðgerðin er framkvæmd á skurðstofu Læknahússins í Dea Medica. Skurðstofur Guðmundar Más er á 7. hæð í Glæsibæ.
Þarf ég að fara í svæfingu?
Í öllum tilvikum fer brjóstalyfting fram í svæfingu. Svæfingin er gerð af svæfingalækni og fylgist hann með þér á meðan á aðgerðinni stendur og meðan þú ert að vakna og jafna þig fyrstu stundirnar eftir aðgerð. Svæfingatækni hefur þróast á síðustu árum þannig að svæfingar eru í dag öruggari, fólk fljótara að jafna sig og minni hætta er á ógleði en áður var.
Hvað gerist á meðan á aðgerð stendur?
Mismunandi aðferðir og tækni eru notaðar við brjóstalyftingar og ræðst aðferðin að mestu af lögun og stærð brjóstanna. Tvær algengustu aðferðirnar eru háðar þeim annmörkum að skilja annaðhvort eftir ör sem er í laginu eins og akkeri, sem þó fellur að náttúrulegu lagi brjóstsins, eða lóðrétt ör niður frá geirvörtu og kringum hana. Hjá þessu verður ekki komist við brjóstalyftingu og brjóstalagfæringu. Í báðum tilfellum er umframhúð fjarlægð og geirvartan færð hæfilega upp á við og minnkuð þegar hún er hlutfallslega of stór. Húðin sem eftir situr er strekkt þannig að brjóstið lyftist, endurmótast og verður stinnara. Geirvörtustæðið færist upp á við og er minnkað þegar það á við. Í sumum tilfellum eru brjóstin það tóm og rýr að viðunandi árangur næst ekki nema að setja inn sílikonpúða. Ef púði er settur inn um leið og brjóstinu er lyft og lagfært er honum ýmist komið fyrir í hólfi beint undir brjóstkirtlinum eða dýpra undir bringuvöðvanum. Sjá nánar upplýsingasíðu um brjóstastækkanir.
Hversu langan tíma tekur aðgerðin?
Brjóstaminnkun tekur að jafnaði tvo til þrjá og hálfan klukkutíma. Vöknun tekur einn til tvo tíma og er undir eftirliti svæfingalæknis og þjálfaðra hjúkrunarfræðinga.
Hvernig verður ástand mitt strax eftir aðgerðina?
Brjóstalyfting er aðgerð sem krefst svæfingar og því þarf að gera ráð fyrir tveim til þrem klukkutímum í vöknun eftir aðgerð. Eftir vöknun er líklegt að þú finnir fyrir verkjum í skurðunum og sárunum en viðeigandi verkjastillandi lyf eru notuð til að draga úr þeim. Mikilvægt er að vandamaður eða vinur sæki einstakling sem hefur farið í brjóstalyftingu. Við útskrift eru settar grisjur á skurðinn og umbúðir utan um brjóstin. Ekki er skipt um umbúðir fyrr en þrem til sex dögum eftir útskrift.
Hversu langan tíma tekur það að ná eðlilegum bata?
Mikilvægt er að hvílast vel og taka lífinu með ró fyrstu tvær vikurnar eftir aðgerð meðan sárin eru að gróa. Flestar konur sem fara í brjóstalyftingu geta snúið til starfa eftir tvær vikur en eru þó ekki búnar að ná fullum bata. Fyrstu fjórar til fimm vikurnar eftir aðgerð ættir þú að forðast erfiðismuni eins og að lyfta þungum hlutum eða stunda krefjandi líkamsrækt. Sex vikum eftir aðgerð ættir þú að ná fullum bata og geta t.d. farið í líkamsrækt, sund eða aðra hreyfingu.
Hvaða væntingar ætti ég að hafa varðandi breytt útlit?
Ánægja þín með aðgerðina verður líklega umtalsverð ef þú leggur þig fram við að skilja hverju hún raunverulega skilar og stillir væntingum þínum í hóf. Lýtalæknirinn mun gera allt sem í hans valdi stendur til þess að hylja örin en hér verður að hafa hugfast að brjóstalyfting skilur eftir varanleg ör. Á nokkrum árum fölna örin og verða að lokum föl misbreið lína. Lagfæring á brjóstum við brjóstalyftingu er aðgerð sem konur eru yfirleitt ákaflega ánægðar með þegar upp er staðið þrátt fyrir ofangreinda fylgifiska. Yfirleitt endist aðgerð lengur þegar púðar eru settir í brjóstin samhliða lyftingu.