Er einhver áhætta fólgin í kviðaðgerð?

Kviðaðgerð er algeng skurðaðgerð sem er framkvæmd á fjölda einstaklinga ár hvert án nokkurra vandamála. Engu að síður er rétt að hafa í huga að öllum skurðaðgerðum fylgir ákveðin áhætta og einstaka sinnum koma upp vandamál tengd kviðaðgerðum. Sýkingar eru fátíðar og minni háttar ef þær koma upp. Alvarlegri sýkingar, þá sjaldan þær koma upp, eru líklegri hjá reykingafólki, einstaklingum sem eiga við offituvandamál að etja en geta einnig komið upp hjá sykursýkisjúklingum. Hægt er að minnka líkurnar á vandamálum verulega með því að fylgja vandlega leiðbeiningum bæði fyrir og eftir aðgerð.


Hvað þarf ég að hafa í huga áður en ég fer í kviðaðgerð?

Mikilvægt er að hafa í huga að kviðaðgerð getur ekki komið í stað megrunar, né er hún í sjálfu sér megrunaraðgerð. Fyrir einstaklinga sem eiga við offituvandamál að stríða er aðgerðin þar að auki áhættumeiri. Áður en þú ákveður að fara í aðgerð skaltu fara ítarlega yfir væntingar þínar og markmið með aðgerðinni og ræða þau við lýtalækninn. Hér ber að hafa í huga að aðgerðin getur í mörgum tilfellum bætt útlit og aukið sjálfstraust en er ekki líkleg til að gerbreyta útliti þínu. Ef þú þarft að léttast er rétt að fresta aðgerð uns kjörþyngd fyrir aðgerð er náð. Eins er rétt að bíða með aðgerð ef þú stefnir að barneignum á næstu misserum. Þeir sem hafa góðar forsendur til að fara í kviðaðgerð eru konur og karlar sem eru í tiltölulega góðu formi en losna ekki við lafandi fitu sem hangir á maganum þrátt fyrir megrunarátak og líkamsrækt.


Hvernig get ég undirbúið mig undir kviðaðgerð?

Á meðan á undirbúningi stendur er afar mikilvægt að ræða hreinskilnislega við lýtalækninn hvaða væntingar þú hefur til aðgerðarinnar. Þú þarft m.a. að upplýsa hann um atriði sem skipta máli fyrir aðgerðina, eins og reykingar og hvers konar lyf og bætiefni þú tekur. Lýtalæknirinn mun einnig ræða hreinskilnislega um möguleika þína og áhættur sem fylgja aðgerðinni. Áður en að aðgerðinni sjálfri kemur mun lýtalæknirinn láta þig hafa upplýsingar um það hvernig best er að haga undirbúningi, þ.m.t. leiðbeiningar um mataræði, áfengi, reykingar og notkun áfengis og lyfja. Ef þú reykir verður þér ráðlagt að hætta reykingum í a.m.k. sex vikur fyrir aðgerð og byrja ekki aftur fyrr en tveim til þrem vikum eftir aðgerð. Þá er óæskilegt að vera mikið í sól dagana fyrir aðgerð og eins eru megrunarkúrar ekki heppilegir skömmu fyrir aðgerð. Hvort tveggja getur haft áhrif á möguleika þína til að ná skjótum og eðlilegum bata. Ef þú færð flensu eða hita skömmu fyrir aðgerð er rétt að fresta aðgerðinni þangað til þú hefur náð fullri heilsu. Samhliða undirbúningi ættir þú að fá vin eða vandamann til að sækja þig eftir aðgerð og fylgja þér heim. Þá er æskilegt að fá aðstoð heima við í nokkra daga eftir aðgerð. Skaffa þarf sérstakt magabelti fyrir aðgerð sem lýtalæknirinn segir þér nánar frá.


Hvar er aðgerðin framkvæmd?

Aðgerðin er framkvæmd á skurðstofu Læknahússins í Dea Medica. Skurðstofur Guðmundar Más er á 7. hæð í Glæsibæ.


Þarf ég að fara í svæfingu?

Kviðaðgerð fer fram í svæfingu. Svæfingalæknir heldur þér sofandi í gegnum alla aðgerðina. Svæfingatækni hefur þróast á síðustu árum þannig að svæfingar eru í dag öruggari, fólk fljótara að jafna sig og minni hætta er á ógleði en áður var.


Hvað gerist á meðan á aðgerð stendur?

Í langflestum tilfellum sker lýtalæknirinn nokkuð langan skurð frá öðru mjaðmabeini í línu sem liggur rétt ofan við kynhár og að hinu mjaðmabeininu. Til viðbótar er gerður annar skurður kringum naflann til að skilja hann frá nærliggjandi vefjum. Næst skilur lýtalæknirinn húðina frá kviðveggnum alla leið upp að rifbeinum, flettir síðan húðinni upp og frá til að komast að magavöðvunum. Þessir vöðvar eru síðan lítillega strekktir ef með þarf og að lokum saumaðir saman. Þessi fasi aðgerðarinnar gerir kviðinn að lokum flatari og minnkar mittislínuna. Því næst er aukahúð fjarlægð og húðin aftur strekkt niður að skurðinum. Nýtt gat er gert á húðina til að opna fyrir naflann og koma honum eðlilega fyrir eftir að umframhúð hefur verið fjarlægð. Að lokum eru skurðirnir saumaðir saman og grisjur og umbúðir settar á sárin. Í minni aðgerðum er húðin neðan við nafla eingöngu fjarlægð. Í þeim tilfellum er skurðurinn yfirleitt minni og enginn skurður kringum naflann.


Hversu langan tíma tekur aðgerðin?

Kviðaðgerðir geta verið misjafnlega umfangsmiklar eftir einstaklingum en að öðru jöfnu tekur aðgerðin um tvo og hálfan til fjóra tíma. Minni aðgerðir taka einn og hálfan til tvo tíma. Eftir aðgerðina er fylgst með þér í vöknun í eina til þrjár klukkustundir en eftir það er viðkomandi fluttur á sjúkrastofu.


Hvaða væntingar ætti ég að hafa varðandi árangur?

Í nokkra daga eftir aðgerðina verður kviðurinn á þér líklega bólginn og þú finnur fyrir verkjum og óþægindum. Verkjum er þó að mestu hægt að halda í skefjum með lyfseðilsskyldum verkjalyfjum sem lýtalæknirinn ávísar. Lýtalæknirinn mun gefa þér ráð varðandi almenn dagleg atriði eins og sturtu og þvott meðan umbúðir eru á sárum og einnig hvenær á að skipta um umbúðir. Mikilvægt er að þú byrjir að hreyfa þig og ganga eins fljótt og unnt er jafnvel þó að þú getir ekki verið í alveg uppréttri stellingu fyrstu dagana. Yfirleitt er skurðum lokað með saumum sem eyðast nema í kringum naflann. Skipt er á umbúðum við útskrift sem venjulegast er tveim dögum eftir aðgerð. Þér verður beint í eftirlit hjá lýtalækninum þrem til sex dögum eftir útskrift og saumar við nafla fjarlægðir tíu til tólf dögum eftir aðgerð. Eftir það mun lýtalæknirinn fylgjast með þér áfram um hríð.


Hversu langan tíma tekur það að ná eðlilegum bata?

Eftir jafnumfangsmikla aðgerð og kviðaðgerð getur tekið vikur og jafnvel mánuði að ná fullum bata. Ef þú ert við góða heilsu og jafnframt í líkamlega góðu ástandi fyrir aðgerð, með sterka kviðvöðva, mun það flýta bata til muna. Ekki er óalgengt að fólk sé aftur farið til starfa eftir tvær til þrjár vikur. Æfingar sem lýtalæknirinn leiðbeinir þér með geta flýtt bata. Framan af verða sárin sýnileg og þrútin í fimm til sex vikur. Eftir það verða sárin svipuð í nokkra mánuði og gætu virst víkka. Á nokkrum mánuðum fölna sárin en hverfa aldrei alveg.


Hvaða væntingar ætti ég að hafa varðandi breytt útlit?

Árangur kviðaðgerðar er oftast góður, einkum og sér í lagi ef þú ert með slaka kviðvöðva og verulega umframhúð. Ef þú fylgir fyrirmælum lýtalæknisins varðandi æfingar og mataræði er líklegt að árangurinn muni vara lengi. Ef væntingar þínar fyrir aðgerð eru raunsæjar og þú telur að varanlegt ör eftir skurðinn sé viðunandi eru miklar líkur á að ánægja ríki með árangurinn.