Hvað er húðsepi?

Húðsepi er góðkynja yfirborðsbreyting í húð, mjög gjarnan staðsett í holhönd, á hálsi eða nárum en getur komið hvar sem er. Þetta eru oftast litlar húðtotur, stundum stikaðar en geta þó í einstaka tilfellum náð töluverðri stærð. Breytingar þessar eru algengastar á miðjum aldri. Oftast valda þær litlum óþægindum nema sem lýti eða að um sé að ræða ertingu vegna núnings við föt eða skartgripi.


Hvað er stíflaður fitukirtill?

Ef útgangsop fitukirtils stíflast heldur kirtillinn áfram að framleiða fitu og við það tútnar hann út. Þetta getur gerst hvar sem er á líkamanum. Oftast myndast kringlótt fyrirferð sem getur verið mismunandi að stærð, allt frá nokkrum mm upp í nokkra cm. Oft er hægt að kreista úr þessu seiga hvíta fitu sem stundum er illa lyktandi. Ef sýking kemst í kirtilinn verða roði og eymsli á svæðinu og jafnvel graftarmyndun. Þessar breytingar eru góðkynja og breytast ekki í krabbamein. Þær geta þó verið til mikils útlitsama og valdið endurteknum sýkingum og óþægindum.


Hvað er yfirborðsblettur (elliblettur)?

Svokallaðir elliblettir eru algengustu húðbreytingarnar. Þó að ástæðurnar fyrir myndun þeirra séu óþekktar virðast þeir myndast á eldri einstaklingum á stöðum sem hafa verið mikið í sól. Oft og tíðum myndast nokkrir blettir á sama tíma, einkum í andliti og á hálsi. Blettirnir eru gjarnan brúnir eða ljósbrúnir á lit með skarpan jaðar. Áferð þeirra er mismunandi og geta þeir verið hrjúfir eins og varta og einnig mjúkir viðkomu. Í einstaka tilfellum geta þeir flagnað eða yfirborð þeirra molnað og jafnvel blætt úr þeim, sérstaklega ef þeir eru nuddaðir eða klóraðir. Ekki er óalgengt við slíkar aðstæður að fólk rugli þeim saman við krabbameinsbletti. Elliblettir eru hins vegar ekki krabbameinsvaldandi húðbreytingar og er auðvelt að fjarlægja þá án þess að það skilji eftir ör.


Ég er með húðflipa á hálsinum sem nuddast við hálsmen, er auðvelt að láta fjarlægja slíkan húðflipa?

Húðflipa af þessum toga er auðvelt og einfalt að fjarlægja með staðdeyfingu. Yfirleitt tekur aðgerðin aðeins nokkrar mínútur. Oft þarf ekki að sauma og eru því ör eftir aðgerð lítil sem engin eða oftast viðunandi.


Ég er með fæðingarblett í andliti, ef ég læt fjarlægja hann mun aðgerðin skilja eftir ör?

Í meirihluta tilvika fer andlitslyfting fram í svæfingu en stundum í staðdeyfingu með eða án róandi lyfjagjafar. Svæfingin er gerð af svæfingalækni og fylgist hann með þér á meðan á aðgerðinni stendur og meðan þú ert að vakna og jafna þig fyrstu stundirnar eftir aðgerð. Svæfingatækni hefur þróast á síðastliðnum árum þannig að svæfingar eru í dag öruggari, fólk fljótara að jafna sig og minni hætta er á ógleði en áður var.


Ég er með hnúð (fyrirferð) undir húð sem mér hefur verið sagt að sé fituæxli. Mun ég sitja uppi með ör ef ég léti fjarlægja þetta?

Fyrirferð eða hnúðar eru mjög algengir. Þeir eru mismunandi að stærð og geta verið á stærð við baun eða jafnvel stærri en höndin á þér. Stundum getur þurft sónarrannsókn áður en stórir hnúðar eru fjarlægðir, einkum ef rætur þeirra liggja djúpt í húðinni. Oftast getur þó lýtalæknir gert viðhlítandi greiningu á stofu.


Allt frá barnæsku hef ég mikið stundað sól og sólbað og brenndist nokkrum sinnum illa í sólinni sem barn. Er hætta á að ég fái krabbamein í húð?

Sumar tegundir húðkrabbameins eru algengari í einstaklingum sem hafa mikið verið í sól og stundað mikið sólböð. Ef vart verður við húðbreytingu sem þig grunar að gæti verið krabbamein ættir þú strax að hafa samband við lækni sem hjálpar þér við að greina blettinn. Við slíkar aðstæður ættir þú að fá einhvern til að skoða á þér bakið endrum og eins og ekki að bíða ef vart verður við bletti sem eru að breytast en virðast ekki ætla að hverfa aftur.


Ég er með dökkan fæðingarblett sem ég hef haft lengi. Núna virðist hann vera að stækka. Þarf ég að láta fjarlægja hann?

Mörg okkar hafa fjölda lítilla litarbreytinga eða bletta sem gætu fallið undir hugtakið fæðingarblettur. En fæðingarblettur er húðblettur sem við höfum haft frá fæðingu en verður fyrir litabreytingu þegar hann kemst í tæri við sól og safnar í sig litarefnum. Þessir blettir eru í flestum tilfellum skaðlausir með öllu. Stundum þegar útlit og litur fæðingarbletts breytist eða hann tekur upp á því að stækka getur verið um illkynja breytingu að ræða. Við slíkar aðstæður er rétt að hafa samband við lækni, láta fjarlægja breytinguna og senda sýni í vefjagreiningu.