Er einhver áhætta fólgin í fitusogsaðgerð?

Fitusog er tiltölulega áhættulaus aðgerð ef hún er framkvæmd af þjálfuðum læknum með réttum tækjabúnaði. Lýtalæknirinn fer með þér yfir heilsufarslegar forsendur þínar fyrir aðgerð og hvort líklegt sé að ná þeim árangri sem þú væntir. Besti árangur næst hjá fólki sem er nálægt kjörþyngd en er með óeðlilega fitusöfnun á staðbundnum svæðum. Slík fitusöfnun er í sumum tilfellum ættgeng. Mikilvægt er að hafa í huga að jafnvel þó að vel þjálfaðir læknar með tækjabúnað af bestu gerð geri aðgerðina er ekki öruggt að hún verði í samræmi við væntingar þínar. Þó að vandamál við fitusogsaðgerðir séu afar sjaldgæf geta þau komið upp. Ef framkvæma á aðgerðina samtímis á mörgum stöðum eða ef fitumagnið er mjög mikið aukast líkur á vandamálum. Við slíkar aðstæður taka aðgerðirnar gjarnan lengri tíma en smærri aðgerðir. Mikilvægt er að undirstrika að fitusogsaðgerðir koma á engan máta í stað megrunar. Reynslan erlendis, einkum í Bandaríkjunum, hefur sýnt að fitusog á óhóflega feitu fólki þar sem verulegt magn fitu er fjarlægt getur verið hættulegt og kallað á mörg vandamál og alvarlega fylgikvilla.


Hvað þarf ég að hafa í huga áður en ég fer í fitusog?

Ef þú ert að hugsa um að fara í fitusogsaðgerð er mjög mikilvægt að þú hafir raunsæjar væntingar um útkomu aðgerðarinnar. Þó að fitusogsaðgerð geti oft og tíðum stórlega bætt útlit og þar með sjálfstraust er mikilvægt að væntingarnar séu raunsæjar. Því er mikilvægt að þú gerir þér grein fyrir þeim væntingum sem þú hefur um árangur aðgerðarinnar og gangir úr skugga um að þær séu raunsæjar þegar þú ræðir við lýtalækninn. Þeir sem hafa bestu forsendurnar til að fara í slíka aðgerð eru einstaklingar sem ekki eru allt of þungir og óska eftir að láta fjarlægja fitu á staðbundnum svæðum sem eru til lýta. Einnig er æskilegt að vera líkamlega vel á sig kominn. Og þó að aldur skipti ekki máli hér liggja ýmsar ástæður fyrir því að útkoman er síðri eftir því sem einstaklingarnir eru eldri.


Hvernig á ég að búa mig undir fitusogsaðgerð?

Í fyrsta viðtali mun lýtalæknirinn meta heilsu þína með tilliti til aðgerðar og skoða þau fitusöfnunarsvæði sem um ræðir auk þess að meta ástand húðarinnar. Í þessu viðtali mun lýtalæknirinn einnig meta hvort fitusog er rétta aðgerðin fyrir þig til að ná markmiðum þínum. Til dæmis gæti hann mælt með kviðaðgerð ef þú ert að hugsa um aðgerð framan á kviði. Einnig gæti verið að lýtalæknirinn mælti með samblandi af aðgerðum til að ná árangri. Það sem lýtalæknirinn þarf að leggja til grundvallar eru atriði eins og öryggi og mögulegur árangur. Þegar að aðgerð kemur færðu leiðbeiningar varðandi undirbúning, þar á meðal atriði eins og mataræði, reykingar, lyf og bætiefni. Þá er rétt að hafa í huga að fá einhvern fjölskyldumeðlim eða vin til þess að sækja þig að aðgerð lokinni.


Hvar er aðgerðin framkvæmd?

Aðgerðin er framkvæmd á skurðstofu Læknahússins í Dea Medica. Skurðstofur Guðmundar Más er á 7. hæð í Glæsibæ.


Þarf ég að fara í svæfingu?

Algengast er að svæfingu þurfi til þess að framkvæma fitusogsaðgerð. Ef um takmörkuð staðbundin svæði er að ræða er hægt að gera aðgerðina í staðdeyfingu. Ef aðgerðin þarfnast svæfingar er hún gerð af svæfingalækni og fylgist hann með þér á meðan á aðgerðinni stendur. Einnig fylgist hann með þér meðan þú ert að vakna og jafna þig fyrstu stundirnar eftir aðgerð. Svæfingatækni hefur þróast á síðustu árum þannig að svæfingar eru í dag öruggari, fólk fljótara að jafna sig og minni hætta er á ógleði en áður var.


Hvað gerist á meðan á aðgerð stendur?

Fitusog er aðgerð þar sem staðbundin og þrálát fitumyndun á einum eða fleiri stöðum er fjarlægð til að bæta útlínur líkamans. Í aðgerðinni er mjóu sogröri stungið inn í örlítinn skurð sem lýtalæknirinn gerir á húðina og fita sem liggur djúpt undir húðinni sogin út með öflugum undirþrýstingi. Sogrörinu er síðan juðað fram og til baka í fitulaginu til að brjóta upp fitufrumurnar og soga fituna út. Lýtalæknirinn reynir að staðsetja skurðina, sem eru örlitlir, á lítt áberandi stöðum. Ef meðhöndla á mörg svæði færir lýtalæknirinn sig milli svæða og gerir nýja skurði á hverjum stað uns öll þau svæði sem fyrirhugað er að meðhöndla hafa verið afgreidd. Vökvatap verður úr líkamanum með fitusoginu og því gefur svæfingalæknirinn vökva í æð meðan á aðgerð stendur og eftir aðgerð til að bæta upp vökvatapið. Eftir því sem stærra yfirborð er meðhöndlað og meiri fita fjarlægð þarf meiri vökva í æð. Í lok aðgerðar eru settar litlar umbúðir á staðina og þar yfir eins konar þrýstingsumbúðir, teygjuhólkur, teygjubelti eða einhvers konar teygjubuxur eða bolur, eftir því hvaða svæði hafa verið meðhöndluð.


Hversu langan tíma tekur aðgerðin?

Tíminn sem aðgerðin tekur getur verið mjög mismunandi eftir stærð og umfangi þeirra svæða sem er til meðferðar eru. Algengt er að aðgerð taki um tvær klukkustundir en getur verið allt frá einni og upp í þrjár til fjórar klukkustundir.


Hvernig verður ástand mitt strax eftir aðgerðina?

Strax eftir aðgerð er líklegt að þú eigir eftir að finna fyrir vökva sem lekur út um skurðina. Eftir aðgerð myndast bjúgur, bólga og mar á hinum meðhöndluðu svæðum. Bólga, þroti og mar nær yfirleitt hámarki á öðrum til þriðja degi eftir aðgerð. Verkir, eymsli og ónot eru á svæðinu en er haldið niðri með verkjalyfjum sem læknirinn ávísar. Jafnframt er líklegt að þér verði gefin fúkkalyf í fyrirbyggjandi skyni. Verkir og ónot sem margir lýsa sem harðsperrum fara hjaðnandi eftir fyrstu tvo til fjóra sólahringana. Fyrir kemur að lítillega blæði eða renni út um skurðinn í umbúðir á fyrsta sólahring. Ef þetta er mikið þarf að skipta um umbúðir. Klæðast þarf fatnaði með teygju í til að hamla gegn bjúg- og vökvasöfnun og til að móta húðina að hinum nýju útlínum í nokkrar vikur eftir aðgerð.


Hversu langan tíma tekur það að ná eðlilegum bata?

Bati eftir aðgerðir er yfirleitt hægur ferill. Æskilegt er að einstaklingar sem fara í fitusog byrji að ganga um eins fljótt og þeir treysta sér til til að fá hreyfingu á blóðið og koma í veg fyrir uppsöfnun blóðs í fótleggjum. Oftast tekur aðeins fáeina daga að ná sér eftir fitusog og eru flestir komnir til starfa eftir fjóra til fimm daga. Eftir eina til tvær vikur ætti þér að vera farið að líða nokkuð vel og mestöll vanlíðan og verkir að vera horfnir. Skurðum er yfirleitt lokað með saumum sem eyðast og þarf því ekki að fjarlægja neina sauma. Nota þarf „þrýstiklæðnað“ á meðhöndluðum svæðum í þrjár til sex vikur eftir umfangi og staðsetningu. Forðast skal áreynslu og íþróttaiðkanir í u.þ.b. mánuð eftir aðgerð meðan líkaminn er að ná sér og sár að gróa. Þó að mar og þroti sé yfirleitt að mestu horfinn innan þriggja vikna getur bjúgur verið á svæðinu í fjóra til sex mánuði. Þér verður stefnt í eftirlit hjá lýtalækninum sem mun fylgjast með batanum og þróun mála. Ef óvænt atvik koma upp, t.d. blæðing eða skyndileg aukning verkja, er rétt að hafa samband við lækninn.


Hvaða væntingar ætti ég að hafa varðandi breytt útlit?

Þú munt sjá greinilegan mun á útlínum fljótlega eftir aðgerð. Þessi breyting til batnaðar verður greinilegri eftir fjórar til sex vikur þegar mesti bjúgurinn, marið og þrotinn er horfinn. Eftir um þrjá mánuði er sá árangur sem náðst hefur yfirleitt búinn að skila sér að fullu. Ef væntingar þínar hafa verið raunsæjar er líklegt að þú sért ánægð(ur) með árangurinn. Þú munt finna mun hvað klæðaburð varðar. Ekki sakar að viðhalda og reyna að auka á árangur með heilnæmu fæði og líkamsrækt.