Felst einhver áhætta í brjóstaminnkunaraðgerð?
Þó að brjóstaminnkunaraðgerð sé ekki einföld aðgerð miðað við margar aðrar aðgerðir sem lýtalæknar framkvæma, þá er hún yfirleitt örugg og áhættulítil ef hún er framkvæmd af lýtalækni eftir þekktum þróuðum aðferðum. Áhættur fylgja þó þessum aðgerðum eins og öllum öðrum aðgerðum. Helstu áhættur eru blæðingar, sýkingar og höfnun á saumum. Vegna þess að geirvörtur eru færðar til á stilk í aðgerðinni geta komið fram blóðrásartruflanir sem í einstaka, en þó sjaldgæfum, tilfellum geta leitt til dreps í hluta af eða allri geirvörtunni. Með því að undirbúa aðgerðina vandlega og fara í öllu eftir fyrirmælum lýtalæknisins er hægt að minnka til muna líkurnar á að vandamál komi upp.
Hvað þarf ég að hafa í huga áður en ég fer í brjóstaminnkun?
Ef þú telur að brjóstaminnkun sé gagnleg aðgerð fyrir þig er æskilegt að þú áttir þig vel á ástæðunum og ræðir þær hreinskilnislega við lýtalækninn. Oft og tíðum finnst einstaklingum mikil og rökstudd þörf á lýtaaðgerð þó að öðrum finnist það ekki jafnaugljóst. Því er mikilvægt að undirbúa fyrsta viðtal með því að hafa á takteinum ástæður þínar fyrir aðgerð og einnig að átta sig vel á þeim væntingum sem þú hefur um útkomuna. Í viðtalinu þarftu að vera undir það búin að lýtalæknirinn sé einnig hreinskilinn við þig um möguleika þína og hvers sé að vænta eftir aðgerðina. M.a. mun hann gera þér grein fyrir því að afar ólíklegt er að þú getir haft barn á brjósti eftir brjóstaminnkunaraðgerð. Ákaflega mikilvægt er að gefa lýtalækninum réttar upplýsingar um heilsufarssögu þína, eins og ættgenga sjúkdóma í brjóstum, upplýsingar um reykingar, áfengisnotkun og notkun bætiefna o.s.frv.
Hvernig er undirbúningi fyrir brjóstaminnkun háttað?
Áður en að aðgerð kemur mun lýtalæknirinn gefa þér fyrirmæli sem hjálpa þér við að undirbúa aðgerð. Eru það leiðbeiningar um mat og drykk, reykingar og lyfjanotkun. Æskilegt er að þyngd sé sem næst kjörþyngd þegar aðgerð fer fram. Best er ef viðkomandi reykir ekki eða að lágmarki geri hlé á reykingum vissan tíma fyrir og eftir aðgerð. Við undirbúning er rétt að gera ráð fyrir að aðstandandi eða vinur sæki þig við útskrift og einnig að gera ráð fyrir hjálp heima fyrir fyrstu dagana eftir aðgerð. .
Hvar er aðgerðin framkvæmd?
Aðgerðin er framkvæmd á skurðstofu Læknahússins í Dea Medica. Skurðstofur Guðmundar Más er á 7. hæð í Glæsibæ.
Þarf ég að fara í svæfingu?
Í öllum tilvikum fer brjóstaminnkunaraðgerð fram í svæfingu. Svæfingin er gerð af svæfingalækni og fylgist hann með þér á meðan á aðgerðinni stendur og meðan þú ert að vakna og jafna þig fyrstu stundirnar eftir aðgerð. Svæfingatækni hefur þróast á síðustu árum þannig að svæfingar eru í dag öruggari, fólk fljótara að jafna sig og minni hætta er á ógleði en áður var.
Hvað gerist á meðan á aðgerð stendur?
Þegar brjóst eru minnkuð er fitu- og kirtilvefur í brjóstinu fjarlægður ásamt umframhúð. Með því að fjarlægja þessa vefi og strekkja á eftirsitjandi húð er hægt að gera brjóstin léttari, minni og þrýstnari. Mismunandi aðferðir og tækni eru til við brjóstaminnkunaraðgerðir. Algengasta aðferðin ber með sér að eftir situr ör í laginu eins og akkeri: þ.e. hringinn í kringum geirvörtuna, beint niður af geirvörtunni og í fellingu undir öllu brjóstinu. Í aðgerðinni er geirvartan og geirvörtustæðið minnkað og fært upp á við á stilk sem blóðnærir það á nýjum stað. Eftir aðgerðina er búið um brjóstin með ákveðnum umbúðum, grisjum og plástri í fimm til sex daga þegar skipt er á umbúðunum. Í einstaka tilfellum er komið fyrir kera í innra brjóstsárinu til að líkamsvessar og blóð geti lekið frá sárinu.
Hversu langan tíma tekur aðgerðin?
Brjóstaminnkun tekur að jafnaði tvo til þrjá og hálfan klukkutíma. Vöknun tekur einn til tvo tíma og er undir eftirliti þjálfaðra hjúkrunarfræðinga.
Hvernig verður ástand mitt strax eftir aðgerðina?
Eftir vöknun er líklegt að þú finnir fyrir verkjum í skurðunum og sárunum en viðeigandi verkjastillandi lyf eru notuð til að draga úr þeim. Mikilvægt er að vandamaður eða vinur sæki einstakling á sjúkrahúsið sem hefur farið í brjóstaminnkunaraðgerð. Við útskrift eru settar grisjur á skurðinn og umbúðir utan um brjóstin. Ekki er skipt um umbúðir fyrr en fimm til sex dögum eftir útskrift.
Hversu langan tíma tekur það að ná eðlilegum bata?
Mikilvægt er að hvílast vel og taka lífinu með ró fyrstu tvær vikurnar eftir aðgerð meðan sárin eru að gróa. Flestar konur sem fara í brjóstaminnkun geta snúið til starfa eftir tvær til fjórar vikur en eru þó ekki búnar að ná fullum bata. Fyrstu fjórar til fimm vikurnar eftir aðgerð ættir þú að forðast erfiðismuni eins og að lyfta þungum hlutum eða stunda krefjandi líkamsrækt. Sex vikum eftir aðgerð ættir þú að vera búin að ná fullum bata og geta t.d. farið í líkamsrækt, sund eða stundað aðra krefjandi hreyfingu.
Hvaða væntingar ætti ég að hafa varðandi breytt útlit?
Sem fyrr segir er brjóstaminnkun ein þakklátasta aðgerð sem lýtalæknar framkvæma. Hlutfall einstaklinga sem eru mjög ánægðir eftir aðgerð er með því hæsta sem gerist. Brjóstaminnkun er aðgerð sem breytir útliti skjótt og gefur einstaklingnum nýja möguleika í bæði hreyfingu og klæðaburði. Eftir slíka aðgerð er líklegt að þér líði betur og að þú metir þá möguleika sem opnast. Hér ber þó að hafa í huga að brjóst almennt eru sjaldnast nákvæmlega jafnstór og samhverf hvort sem þau eru lítil eða stór. Hið sama á við eftir brjóstaminnkunaraðgerð og því er óraunhæft að gera ráð fyrir slíkri útkomu eftir aðgerð. Lýtalæknar geta gert lagfæringar og bætt lýti til mikilla muna og til þæginda fyrir einstaklinginn en geta ekki gefið fólki fullkomið útlit.