Er einhver áhætta fólgin í notkun fyllingarefnis?

Nánast engin áhætta er fólgin í notkun hyaluronsýru. Ofnæmisviðbrögð þekkjast vart og engir skurðir eru gerðir til að koma efninu inn. Þá er breytingin sem er framkvæmd ekki varanleg heldur fjarar út á ákveðnum tíma eins og fyrr er getið. Gæta verður meiri varúðar í meðferð varanlega fyllingarefnisins þar sem það hverfur ekki og þar sem ekki er hægt að ná því út nema með skurðaðgerð, ef fólk vill losna við það síðar. Einnig er rétt að minna á að gefa þarf sýklalyf í forvarnarskyni þegar varanlegt fyllingarefni er notað. Ofnæmisviðbrögð eru afar sjaldgæf og sömuleiðis sýkingar ef rétt er með farið.


Hvað þarf ég að hafa í huga áður en ég læt setja í mig fyllingarefni?

Best er að hafa sem skýrasta mynd fyrirfram af því hvers þú væntir af notkun fyllingarefnis. Ræða þarf þær væntingar af hreinskilni við lýtalækninn svo að hann geti gert sér grein fyrir því hvort fyllingarefnið geti uppfyllt væntingar þínar. Jafnframt þarf að hafa í huga að þó að góður árangur náist er hann ekki varanlegur og þarf að endurtaka innsprautun efnisins með vissu millibili ef viðhalda á árangri.


Hvernig á ég að undirbúa mig fyrir notkun fyllingarefnis?

Nánast engan undirbúning þarf þar sem um tiltölulega einfalda aðgerð er að ræða. Einungis þarf að mæta á tilsettum tíma án nokkurs andlitsfarða á þeim svæðum sem á að meðhöndla. Hvað varðar notkun varanlega fyllingarefnisins, þá er gjarnan notað minna efni en meira í upphafi og heldur bætt við síðar til að forðast að setja inn of mikið magn. Ef sett er inn of mikið magn geta skapast vandræði þar sem efnið er varanlegt og afar erfitt að ná því út eins og fram hefur komið hér að framan.


Hvar fer innsprautun fyllingarefnis fram?

Aðgerðin er framkvæmd á skurðstofu Læknahússins í Dea Medica. Skurðstofa Guðmundar Más er á 7. hæð í Glæsibæ.


Þarf svæfingu eða deyfingu?

Hægt er að sprauta inn fyllingarefni án deyfingar og er það stundum gert. Algengast er þó að staðdeyfa a.m.k. að einhverju leyti þau svæði sem meðhöndla á, t.d. varir eða enni. Svæfing er óþörf.


Hvað gerist þegar efninu er sprautað í mig?

Lýtalæknirinn sprautar inn efninu sem jafnast í leðurhúðina með afar fíngerðri nál undir þær hrukkur sem meðhöndla á. Síðan jafnar hann út efnið með fingrunum. Þar sem viðkomandi er vakandi getur hann fylgst með því sem gert er í spegli og tekið þátt í að ákvarða hversu mikið efni er notað á hverjum stað, ekki síst í varir.
Varðandi varanlega fyllingarefnið er eins farið að nema hvað efninu er komið fyrir dýpra í húðinni og sýklalyf (fúkkalyf) eru gefin í forvarnarskyni.


Hversu langan tíma tekur innsprautun?

Meðferð tekur um 20 til 45 mínútur eftir aðstæðum og umfangi.


Hvernig verður ástand mitt strax eftir?

Dálítill roði og þroti á hinum meðhöndluðu svæðum er eðlilegur en ætti að vera horfinn á tveim til þrem dögum. Ef deyfing hefur verið notuð fjarar hún út á tveim til fimm klukkustundum. Fyrir getur komið að vart verði við mar á stöku stað þar sem efninu hefur verið sprautað inn, sem í flestum tilvikum hverfur á innan við viku.


Hvaða væntingar ætti ég að hafa varðandi breytt útlit?

Grunnar hrukkur geta horfið alveg eftir ísprautun á meðan þær dýpri hverfa ekki alveg heldur grynnka og mildast. Ef bætt er í varir ætti árangur að geta orðið í samræmi við óskir þínar, ekki síst vegna þess að þú ert vakandi á meðan meðferð fer fram og ákvarðar efnismagnið að mestu leyti sjálf(ur). Eins og fram hefur komið er mikilvægt að gera sér grein fyrir að líkaminn eyðir efninu og áhrif meðferðarinnar fjara út á vissum tíma. Endingin er einstaklings- og svæðisbundin, oft í kringum eitt ár, í besta falli tvö ár en í einstaka tilfellum fáeinir mánuðir. Þá er ending meiri undir hrukkum en þegar fyllt er í varir.
Ef viðkomandi líkar breytingin sem verður við ísetningu fyllingarefnis sem eyðist en endingin er að hans mati of stutt ,kemur vel til greina að nota varanlegt fyllingarefni. Varanlega fyllingarefninu er venjulega komið fyrir í tveim eða jafnvel fleiri áföngum til að komast hjá því að of mikið efni sé sett í varirnar. Þá þarf viðkomandi jafnframt að hafa gert sér vel grein fyrir þeim breytingu hann vill ná fram, því eftir á er erfitt að taka út eða minnka magn fyllingarefnisins nema með skurðaðgerð.