Er einhver áhætta fólgin í nefaðgerð?
Þegar nefaðgerð er framkvæmd af lýtalækni í samræmi við viðurkenndar þróaðar aðferðir eru vandamál sjaldgæf og yfirleitt minni háttar. Nefaðgerð er þó ekki frekar en nokkur önnur aðgerð alveg áhættulaus. Til dæmis er möguleiki á sýkingu, blæðingu eða vandamálum vegna mismunandi viðbragða við svæfingu. Þá er ekki óalgengt (eða í u.þ.b. einni af hverjum 20 aðgerðum) að framkvæma þurfi viðbótaraðgerð, jafnvel þegar færustu sérfræðingar á sviði læknisfræði eiga í hlut þar sem ein aðgerð nær ekki því markmiði sem einstaklingurinn og læknirinn setja sér varðandi útkomu.
Hvað þarf ég að hafa í huga áður en ég fer í nefaðgerð?
Nefaðgerðir þjóna þeim tilgangi að gera lagfæringar eftir slys og fæðingargalla eða lagfæra útlitsafbrigði sem viðkomandi kýs að vera án. Varðandi síðast talda atriðið er nauðsynlegt að gera sér raunsæjar hugmyndir um aðgerðina og hafa í huga að aðgerðin byggist á því sem fyrir er og getur bætt útlitið, en ekki breytt því í neinum grundvallaratriðum. Ekki er æskilegt að framkvæma útlitsaðgerðir á nefi fyrr en að loknum vexti og þroska andlitsins, þ.e. ekki fyrr en við 15 til 17 ára aldur hjá stúlkum en nokkru síðar hjá drengjum. Þeir sem eiga erindi í slíka aðgerð eru þeir sem hafa raunsæjar væntingar um bætt útlit og hafa skýra, skilgreinda ástæðu til þess að fara í slíka aðgerð. Góð heilsa og gott líkamlegt ástand er einnig gott veganesti.
Hvernig á ég aðbúa mig undir aðgerð á nefi?
Áður en að aðgerð kemur mun lýtalæknirinn láta þig hafa fyrirmæli varðandi undirbúning. Slíkur undirbúningur tekur til atriða eins og að fasta ákveðinn tíma fyrir aðgerð og að sneiða hjá ákveðnum lyfjum, áfengi, bætiefnum o.fl. Við undirbúning er rétt að gera ráð fyrir að einhver aki þér á staðinn og sérstaklega að hafa einhvern sem getur fylgt þér heim eftir aðgerð. Þá er mikilvægt að hafa einhvern sem getur aðstoðað þig heima við fyrst eftir aðgerðina.
Hvar er aðgerðin framkvæmd?
Aðgerðin er framkvæmd á skurðstofu Læknahússins í Dea Medica. Skurðstofur Guðmundar Más er á 7. hæð í Glæsibæ.
Þarf ég að fara í svæfingu?
Nefaðgerðir eru oftast gerðar í svæfingu. Svæfingin er gerð af svæfingalækni og fylgist hann með þér meðan á aðgerðinni stendur og meðan þú ert að vakna og jafna þig fyrstu stundirnar eftir aðgerð. Svæfingatækni hefur þróast á síðustu árum þannig að svæfingar eru í dag öruggari, fólk fljótara að jafna sig og minni hætta er á ógleði en áður var. Ef um minni háttar útlitsaðgerðir er að ræða á nefbroddi þar sem einungis er átt við brjóskhluta nefsins en ekki bein eru aðgerðirnar stundum framkvæmdar í staðdeyfingu.
Hvað gerist á meðan á aðgerð stendur?
Í aðgerðinni er húðin á nefinu aðskilin frá beini og brjóski sem síðan er mótað í æskilegt form. Mótun brjósksins er háð umfangi þeirra breytinga sem stefnt er að. Eftir að mótun er lokið er húðin aftur sett yfir og sárinu lokað. Meginskurðir eru lagðir inni í nösum þannig að ör utan á nefi eru óveruleg. Stundum er öll nefaðgerðin framkvæmd innan frá með skurði inni í nösunum. Að lokinni aðgerð er plast- eða gifsspelka sett á nefið til að hjálpa til við að halda hinu nýja formi meðan sár eru að gróa. Einnig eru yfirleitt sett tröð í aðra eða báðar nasirnar í tvo til þrjá daga til að hindra blæðingar og styðja við brjóskið innanvert.
Hversu langan tíma tekur aðgerðin?
Aðgerðir á nefi taka yfirleitt einn og hálfan til tvo og hálfan tíma. Lengri aðgerðir eru þó þekktar þegar framkvæmd er umfangsmikil lagfæring á nefi og loftvegi. Slíkar aðgerðir geta tekið fjórar klukkustundir eða meira.
Hvernig verður ástand mitt strax eftir aðgerðina?
Fyrsta sólarhringinn eftir aðgerð er líklegt að þér finnist andlitið þrútið og bólgið. Þig gæti verkjað í nefið og þú gætir fengið höfuðverk. Þessum verkjum er þó hægt að halda í skefjum með lyfseðilsskyldum verkjalyfjum sem lýtalæknirinn afhendir þér. Gera þarf ráð fyrir að vera rúmfastur fyrsta daginn með hátt undir höfði. Mjög líklega verður vart við bólgur og mar kringum augun, sem nær hámarki á öðrum til þriðja degi. Kaldir bakstrar geta komið að gagni til að draga úr bólgu og vinna fljótar bug á tímabundinni vanlíðan sem fylgir aðgerðinni. Mestöll bólga og mestallt mar hverfur á einni til þrem vikum.
Hversu langan tíma tekur það að ná eðlilegum bata?
Flestir sem fara í nefaðgerð eru orðnir rólfærir eftir einn til tvo daga og geta farið aftur í skóla eða vinnu einni viku eftir aðgerð. Á hinn bóginn er ekki líklegt að þú náir alveg eðlilegu ástandi fyrr en eftir fáeinar vikur. Lýtalæknirinn mun þó gefa þér frekari leiðbeiningar, t.d. að taka ekki þátt í krefjandi og erfiðum íþróttum, að nudda ekki nefið og fara að öllu með gát þegar þú þværð andlitið og hárið. Lýtalæknirinn mun fylgjast með batanum næstu vikur og mánuði á eftir og gefa þér ráð eftir því sem þörf krefur.
Hvaða væntingar ætti ég að hafa varðandi breytt útlit?
Ekki er raunhæft að leggja mat á árangur fyrr en að einni til tveim vikum liðnum. Fyrst eftir aðgerð er andlitið bólgið og tæplega mögulegt að leggja mat á árangurinn. Eftir eina til tvær vikur ætti að vera mögulegt að leggja mat á árangur og sjá þann mun sem þú væntir. En mun lengri tími þarf að líða þar til allur bjúgur og þroti er horfinn. Hinu má ekki gleyma að fullur bati eftir nefaðgerð er hægur og gerir þá kröfu að einstaklingurinn fari vel með sig.