Er einhver áhætta fólgin í augnlokaaðgerð?

Vandamál í aðgerðum á augnlokum og augnpokum eru sjaldgæf og í flestum tilfellum minni háttar ef þau koma upp. Engu að síður fela allar aðgerðir í sér ákveðna áhættu eins og blæðingar og sýkingu. Fyrir kemur að fitukirtlar stíflist og myndi litlar hvítar bólur tímabundið skömmu eftir saumatöku. Þú getur minnkað líkurnar á því að vandamál komi upp með því að fara nákvæmlega eftir fyrirmælum lýtalæknisins fyrir og eftir aðgerð. Neikvæð en þó sjaldgæf einkenni sem fylgja aðgerðum á augnlokum og augnpokum eru bólga í augnhvarmi og tvöföld sjón í nokkra daga. Í undantekningatilfellum getur það gerst að einstaklingar eigi erfitt með að loka augunum í svefni. Öll þessi vandamál eru vel þekkt meðal lýtalækna og einnig með hvaða hætti eigi að bregðast við komi þau upp.


Hvað þarf ég að hafa í huga áður en ég fer í augnlokaaðgerð?

Áður en þú ferð í aðgerð á augnlokum og augnpokum er mikilvægt að huga vandlega að þeim væntingum sem þú hefur varðandi útkomu aðgerðarinnar. Þessar væntingar er mikilvægt að ræða við lýtalækninn og hafa í huga að aðgerð á augnlokum og augnpokum getur bætt útlit þitt og þar með sjálfstraust en breytir ekki útliti til muna. Einnig getur aðgerðin verið gagnleg þegar augnlok hafa truflandi áhrif á sjón.


Hvernig á ég að búa mig undir augnlokaaðgerð?

Í fyrsta viðtali er gott að geta veitt lækninum grundvallarupplýsingar úr þinni eigin heilsufarssögu. Þannig er æskilegt að vita um ofnæmi, hvaða vítamín og bætiefni þú ert að taka, hvort þú takir lyfseðilsskyld lyf, hvort þú reykir o.s.frv. Einnig er ákjósanlegt að ræða við lýtalækninn um væntingar þínar og hvaða markmið þú telur þig hafa með aðgerðinni. Þá er gott að vera búinn að gera upp við sig hvort gera þurfi aðgerð á augnlokum, augnpokum eða hvorutveggja. Mikilvægt er að spyrja lýtalækninn spurninga er varða væntingar þínar og hugleiðingar.


Hvar er aðgerðin framkvæmd?

Aðgerðin er framkvæmd á skurðstofu Læknahússins í Dea Medica. Skurðstofur Guðmundar Más er á 7. hæð í Glæsibæ.


Þarf ég að fara í svæfingu?

Aðgerðir á augnlokum og augnpokum eru oftast gerðar í staðdeyfingu, með eða án róandi lyfjagjafar. Í einstaka tilfellum er aðgerðin gerð í svæfingu.


Hvað gerist á meðan á aðgerð stendur?

Lýtalæknirinn sker eftir náttúrulegum fellingum húðarinnar, þ.e. í húðfellingu efra augnloksins og rétt neðan við augnhár neðra augnloksins. Til hliðanna geta skurðirnir náð lítillega út fyrir augnlokin. Um þessa skurði losar skurðlæknirinn húðina frá undirliggjandi vöðva og fitu. Umframfita og -húð er fjarlægð og húðin sléttuð hæfilega og í sumum tilfellum einnig undirliggjandi vöðvi. Skurðunum er síðan lokað með mjög fínum saumum.


Hversu langan tíma tekur aðgerðin?

Augnlokaaðgerðir taka venjulega einn til þrjá klukkutíma, háð umfangi aðgerðarinnar. Ef um er að ræða aðgerðir á báðum augnlokum og báðum augnpokum samtímis má búast við að fyrst sé gerð aðgerð á augnlokum og síðar á augnpokum.


Hvernig verður ástand mitt strax eftir aðgerðina?

Eftir aðgerðina gæti þér fundist augnlokin og augnhvarmarnir strekktir og aumir. Fyrstu klukkutímana eftir heimkomu er gott að kæla augnlokin með köldum bökstrum, t.d. grisju eða hreinum þvottaklút vættum í köldu vatni, þar á ofan er gott að hafa mulinn ís eða kælifrauð. Þetta dregur úr bólgu og mari. Dagana eftir aðgerð er rétt að halda höfðinu sem mest uppréttu. Mar getur verið mismunandi frá einum einstaklingi til annars en nær yfirleitt hámarki á fyrstu tveim til þrem dögunum. Mar og þroti getur að einhverju leyti verið til staðar í tvær og allt upp í þrjár til fjórar vikur. Lýtalæknirinn mun sýna þér hvernig á að þrífa augun sem geta verið límkennd og klístruð í meira en viku. Á fyrstu vikunni eftir aðgerð getur þú fundið fyrir kláða í augum og geta þá kaldir bakstrar aftur verið gagnlegir. Saumar eru fjarlægðir eftir fimm til sjö daga. Eftir það eru ónot og kláði mun minni og líðan almennt betri.


Hversu langan tíma tekur það að ná eðlilegum bata?

Þú ættir að geta lesið og horft á sjónvarp eftir tvo til þrjá daga. Hins vegar er ekki hægt að vera með linsur fyrstu tvær vikurnar eftir aðgerð og eru linsur tæplega orðnar þægilegar fyrr en nokkru síðar. Flestir geta farið til vinnu og út á meðal fólks eftir viku til tíu daga. Eftir það er yfirleitt hægt að byrja að nota andlitsfarða. Í nokkrar vikur eftir aðgerð getur verið viðkvæmni í augum fyrir roki og sól og því gott að nota sólgleraugu til verndar eftir þörfum. Fyrstu tvær til þrjár vikurnar er rétt að vera á rólegu nótunum og forðast áreynslu og athafnir svo sem íþróttir þar sem augu geta orðið fyrir hnjaski. Skynsamlegt er að forðast áfengi fyrstu dagana eftir aðgerð og fara mjög sparlega með það á batatímanum.


Hvaða væntingar ætti ég að hafa varðandi breytt útlit?

Bati eftir augnlokaaðgerð er hægfara og geta ör kringum augun verið rjóð framan af en fölna síðan hægt og rólega á næstu vikum eða mánuðum. Venjulegast eru örin vart sýnileg þegar upp er staðið. Langflestir eru ánægðir eftir aðgerðina og nær undantekningalaust lítur fólk út fyrir að vera yngra á eftir og gætir áhrifa aðgerðarinnar yfirleitt í mörg ár.