Felst einhver áhætta í andlitslyftingu?

Vandamál í andlitsaðgerð eru sjaldgæf og yfirleitt minni háttar ef þau koma upp. Á hinn bóginn er andlitsfall fólks mjög mismunandi og viðbrögð líkamans við aðgerðum og álagi einnig mismunandi. Því er útkoman ekki alltaf algerlega fyrirsjáanleg. Vandamál sem geta fylgt andlitslyftingu eru blóðsöfnun undir húðinni, tafir á að sár grói (einkum hjá reykingafólki) og minni háttar sýkingar. Ófyrirséð vandamál eins og t.d. skaði á taugum sem stjórna andlitsvöðvum eru möguleg en afar sjaldgæf.


Hvað þarf ég að hafa í huga áður en ég fer í andlitslyftingu?

Andlitslyfting getur í vissum skilningi „snúið við klukkunni“ og gefið einstaklingunum yngra og frísklegra útlit. Oft og tíðum bætir aðgerðin vellíðan og hefur jákvæð áhrif á sjálfstraust og sjálfsímynd. Andlitslyfting getur hins vegar ekki breytt útliti eða hjálpað fólki að endurheimta lífsþrótt æskuáranna. Það er því nauðsynlegt að hafa raunsæjar hugmyndir um árangurinn áður en þú ferð í aðgerð og fara vel yfir þær væntingar sem þú hefur um útkomuna. Þetta er atriði sem nauðsynlegt er að ræða við lýtalækninn af raunsæi. Vart má gera ráð fyrir að nokkur íhugi andlitslyftingu af alvöru fyrr en hann er kominn um eða yfir fertugt. Eftir því sem einstaklingurinn er eldri verða áhrif aðgerðarinnar gjarnan sýnilegri og áhrifameiri.


Hvernig get ég undirbúið mig fyrir andlitslyftingu?

Eftir fyrsta viðtal og ákvörðun um að fara í aðgerð skoðar lýtalæknirinn vandlega andlit þitt, húðina, undirliggjandi vöðva, fitumyndun og beinabyggingu. Eftir það ræðir hann helstu leiðir að markmiði þínu með aðgerðinni. Þá fer hann yfir upplýsingar um heilsufarssögu þína og líkamsástand og helstu áhættuþætti. Hér er nauðsynlegt að láta lækninum í té upplýsingar um reykingar, áfengisnotkun og lyfjanotkun. Áður en að aðgerð kemur mun lýtalæknirinn gefa þér leiðbeiningar um það hvernig þú átt að haga undirbúningi. Í þeim undirbúningi geta verið leiðbeiningar um mataræði, reykingar, lyfjanotkun og bætiefni. Þá mun lýtalæknirinn fara með þér yfir praktísk atriði eins og hvort þú verðir í ástandi til að koma þér heim eftir aðgerð eða hvort þú þurfir aðstoð við að komast heim. Einnig mun læknirinn kynna þér hvað þarf að vera til staðar heima eftir aðgerð og hvers konar aðstoð þú þarft hugsanlega á að halda.


Hvar er aðgerðin framkvæmd?

Aðgerðin er framkvæmd á skurðstofu Læknahússins í Dea Medica. Skurðstofur Guðmundar Más er á 7. hæð í Glæsibæ.


Þarf ég að fara í svæfingu?

Í meirihluta tilvika fer andlitslyfting fram í svæfingu en stundum í staðdeyfingu með eða án róandi lyfjagjafar. Svæfingin er gerð af svæfingalækni og fylgist hann með þér á meðan á aðgerðinni stendur og meðan þú ert að vakna og jafna þig fyrstu stundirnar eftir aðgerð. Svæfingatækni hefur þróast á síðastliðnum árum þannig að svæfingar eru í dag öruggari, fólk fljótara að jafna sig og minni hætta er á ógleði en áður var.


Hvað gerist á meðan á aðgerð stendur?

Venjulega er skurður skorinn innan hárlínu á gagnaugasvæði niður á við, að og framan við eyrað þar sem náttúruleg húðfelling er. Þaðan heldur skurðurinn áfram undir eyrnasnepilinn og upp aftan við eyrað og þaðan inn í hársvörð. Húðinni er síðan flett frá undirlaginu fram á kinnina og niður á hálsinn. Umframhúð og aukafita er fjarlægð. Hert er á himnum og vöðvum og húðin síðan sléttuð með um leið og skurði er lokað. Grisjum er komið fyrir á sárin og höfuð vafið með umbúðum til að draga úr mari og þrota.


Hversu langan tíma tekur aðgerðin?

Andlitslyfting tekur að jafnaði þrjár til fimm klukkustundir eftir umfangi. Ef jafnframt eru framkvæmdar aðgerðir á augnlokum tekur aðgerðin enn lengri tíma. Eftir aðgerðina er fylgst með þér á vöknun í eina til þrjár klukkustundir af svæfingalækni og þjálfuðu hjúkrunarfólki uns talið er óhætt að senda þig heim.


Hvernig verður ástand mitt strax eftir aðgerðina?

Öllum verkjum og óþægindum sem fylgja andlitslyftingu er hægt að halda í skefjum með lyfseðilsskyldum verkjalyfjum sem lýtalæknirinn afhendir þér. Yfirleitt fylgja þó andlitslyftingu litlir verkir. Umbúðir eru yfirleitt fjarlægðar eftir tvo til þrjá daga. Einhver þroti og mar fylgir yfirleitt aðgerðinni og er því óvarlegt að meta árangur fyrr en að fimm til sex dögum liðnum. Saumar eru fjarlægðir í tveim áföngum. Annars vegar á fimmta til sjötta degi og hins vegar á tíunda til tólfta degi efir aðgerð.


Hversu langan tíma tekur það að ná eðlilegum bata?

Þú ættir að vera rólfær strax næsta dag en jafnframt að gera ráð fyrir að taka það rólega í eina viku. Æskilegt er að halda að mestu til heima fyrir í nokkra daga. Ekki er heppilegt að greiða hárið fyrstu dagana þar sem húðin við hársvörðinn getur verið dofin og tilfinningalaus. Lýtalæknirinn mun gefa þér frekari leiðbeiningar eftir aðgerð en ekki er æskilegt að taka mikið á fyrstu vikurnar. Alls ekki er æskilegt að neyta áfengis fyrstu dagana og ekki fara í gufubað næstu þrjá mánuði. Fyrst og fremst er æskilegt að hvílast.
Fyrstu dagana gætir þú fundið fyrir óþægilegri og óvenjulegri tilfinningu í húðinni. Andlitsdrættirnir gætu virst aflagaðir vegna bólgu og andlitshreyfingar stamar og marblettir á húð gætu sést í tvær til þrjár vikur. Oftast eru flest þessara einkenna horfin eftir þrjár vikur og þér almennt farið að líða betur. Flestir geta gert ráð fyrir að fara aftur í vinnu eftir 10 til 15 daga.


Hvaða væntingar ætti ég að hafa varðandi breytt útlit?

Miðað við reynslu og viðbrögð er líklegt að þú verðir strax á fyrstu dögunum ánægð(ur) með útkomuna þrátt fyrir að heildarárangur sé ekki augljós. Eftir að bólgur og marblettir hverfa getur húðin virst þurr og grófari en venjulega í nokkra mánuði. Æskilegt er að hafa mýkjandi krem við höndina. Þrátt fyrir að einhver ör geti fylgt andlitsaðgerð eru þau yfirleitt staðsett þannig að þau má hylja með hári og síðan fölna þau með tímanum.
Flestir sem fara í andlitslyftingu eru ánægðir með útkomuna og má með öryggi telja andlitslyftingu meðal þeirra fegrunaraðgerða sem fólk er hvað ánægðast með eftir aðgerð. Hins vegar er rétt að undirstrika að aðgerðin ræður ekki við elli kerlingu.